Reynsla og árangur
Rannsóknir
Í störfum mínum innan og utan Háskóla íslands hef ég helgað mig því verkefni að bæta námsaðstöðu barna í skóla- og frístundastarfi. Eftir viðamikil stjórnunarstörf á vettvangi Reykjavíkurborgar, kaus ég akademískan starfsferil til að skapa fræðilega þekkingu á námsumhverfi barna í skóla- og frístundastarfi. Sem rannsakandi brenn ég fyrir því að varpa ljósi á þau ólíku öfl sem stuðla að formlegu og óformlegu námi barna og ungmenna. Rauður þráður í niðurstöðum minna rannsókna er að þverfagleg samvinna sé lykilatriði þegar kemur að menntun þeirra og velferð barna. Hið sama má segja um menntavísindin sjálf sem eru að mörgu leyti þverfræðileg. Í starfi mínu sem forseti Menntavísindasviðs hef ég beitt mér fyrir því efla rannsóknir innan sviðsins og styðja við sókn á sviði menntarannsókna. Þá hef ég á undanförnum árum fengið góða innsýn í fjölbreytt vísinda- og fræðastarf allra fræðasviða og meðal annars komið að miðlægri stefnumótun um rannsóknarinnviði innan Háskóla Íslands.
Ýmis verkefni og árangur í tíð minni sem forseti Menntavísindasviðs:
- Aukinn stuðningur við rannsóknir: Ráðning sérfræðinga til stuðnings rannsóknum og nýtt starfakademísks rannsóknarleiðtoga.
- Markvisst umbóta- og gæðastarf: Sjálfsmat rannsókna markvisst nýtt til að endurskoða umgjörð rannsókna og efla rannsóknarmenningu sviðsins.
- Menntarannsóknir í mikilli sókn: Háskóli Íslands komst á Times Higher Education University Ranking fyrsta sinn árið 2019 og er nú á meðal 401-500 bestu háskóla í heimi á sviði menntavísinda.
- Sérstakur menntarannsóknarsjóður stofnaður árið 2021 að norrænni fyrirmynd.
- Alþjóðlegt samstarf: Ráðning erlendra gestaprófessora og tengsl við alþjóðlegt vísindasamfélag.
- Doktorsnám í deiglu: Endurskipulagning og styrking doktorsnáms í kjölfar þarfagreiningar árið 2021, meðal annars skýrari stuðningshlutverk Menntavísindastofnunar og reglulegir fundir með leiðbeinendum og doktorsnemum.
- Norrænn doktorsskóli: Aðild að NORTED, samstarfsneti doktorsskóla á Norðurlöndum.
- Íslenska æskulýðsrannsóknin: Framkvæmd árlega af sviðinu frá 2021 í samstarfi við stjórnvöld og hagaðila, sjá vefsíðu verkefnis
- Greining á PISA könnun: Samvinna við stjórnvöld, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands um greiningu PISA könnunar. Vel sótt PISA málstofuröð skipulögð vorið 2024 (sjá upptökur á youtube) og sérrit á vegum Tímarits um menntarannsóknir í vændum.
Stjórnun og fagleg forysta
Ég hef starfað við stjórnun og faglega forystu í rúma tvo áratugi, bæði innan Reykjavíkurborgar og Háskólans. Sem leiðtogi legg ég áherslu á að unnið sé að sameiginlegri sýn um hvert halda skuli og ég hef metnað fyrir því að sjá fólk og starfseiningar blómstra og ná árangri. Ég leitast við að virkja samstarfsfólk til góðra verka og tel mikilvægt að efla akademískt lýðræði, enda er Háskólinn ekki venjulegt fyrirtæki heldur akademískt samfélag. Sem forseti Menntavísindasviðs hef ég markvisst stuðlað að og komið á formlegu samstarfi við breiðan hóp samstarfsaðila innan og utan skólans, þar á meðal stjórnvöld, Reykjavíkurborg, Kennarasamband Íslands, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, aðra háskóla, innlenda sem erlenda. Þetta samstarf hefur opnað ný tækifæri fyrir rannsakendur og nemendur, aukið sýnileika menntarannsókna og skapað aukið traust á starfsemi sviðsins.
Ég hef mikinn metnað fyrir Háskóla Íslands og tel brýnt að leitað sé allra leiða til að efla og þróa margþætta starfsemi hans. Starfsferill minn hefur einkennst af því að leiða saman fjölbreyttan hóp starfsfólks til að stuðla að nauðsynlegum breytingum og efla nýsköpun. Ég vil sameina krafta starfsfólks á öllum fræðasviðum til að gera góðan háskóla enn betri.
Fjölbreytt verkefni í tíð minni sem forseti Menntavísindasviðs:
- Kaup á Sögu í lok árs 2021 og flutningur Menntavísindasviðs á háskólasvæðið verður að veruleika vorið 2025.
- Aukin fjármögnun: Tvöföldun sértekna Menntavísindasviðs á árunum 2019–2023.
- Stefnumótun og innleiðing umbóta: Nýting stefnu HÍ26 til stöðugra umbóta í starfi Menntavísindasviðs.
- Breytingar á skipuriti Menntavísindasviðs og ný starfseining sett á laggirnar til að styrkja samfélagsleg áhrif og styðja við starfsþróun, nýsköpun og hagnýtingu rannsókna.
- Samvinna um kennaramenntun: Ráðið í sex sameiginlegar akademískar stöður með öðrum fræðasviðum innan Háskólans til að efla samvinnu um kennaramenntun
- Menntaflétta, starfsþróun og námssamfélag sem hefur náð til þúsunda kennara og annars starfsfólks menntageirans.
Kennsla og nám
Ég brenn fyrir því að virkja og valdefla háskólanema til að leiða framfarir í íslensku samfélagi. Sem háskólakennari tel ég afar mikilvægt að nýta fjölbreyttar kennslu- og námsaðferðir, og vil virkja háskólanema til þátttöku í námssamfélaginu. Eitt af brýnustu verkefnum rektors er að styðja við félagsstarf stúdenta og skapa þeim skilyrði til að tengjast, vinna saman og læra hver af öðrum. Ég hef verið þátttakandi í mótun ólíkra námsforma en á Menntavísindasviði er mikil reynsla og gróska í þróun fjarnáms og sveigjanlegra náms- og kennsluhátta.
Þegar ég tók við embætti forseta Menntavísindasviðs árið 2018 hafði kennaranemum fækkað árlega um nokkurt skeið. Brýnt var að snúa þeirri þróun við til að koma til móts við kennaraskort á öllum skólastigum. Ég er sérstaklega stolt af þátttöku minni í því að snúa þeirri þróun við. Það hefði þó aldrei gerst nema með þéttu samstarfi okkar háskólafólks við stjórnvöld og breiðan hóp hagaðila sem mótuðu tillögur að fimm ára átaksverkefni um fjölgun kennara. Komið var á laggirnar launuðu starfsnámi fyrir kennaranema á öllum skólastigum og nýjar MT (Master of Teaching) námsleiðir voru settar á laggirnar. Stjórnvöld lögðu til sérstaka hvatningarstyrki handa kennaranemum og við á Menntavísindasviði horfðum sérstaklega til þess að gera reynslumiklu starfsfólki leikskóla fært að stunda háskólanám. Þetta verkefni skilaði miklum árangri og fjöldi brautskráðra kennara þrefaldaðist árin 2019 til 2023.
Nám og kennsla í tíð minni sem forseti Menntavísindasviðs
- Fjölgun kennara: Innleiðing launaðs starfsnáms og Master of Teaching námsleiða árin 2020 til 2021.
- Leikskólakennaranám með starfi: Breytt kennslufyrirkomulag í formi háskólamorgna hófst árið 2020.
- Innleiðing á raunfærnimati á háskólastigi – fyrsta verkefni sinnar tegundar á háskólastigi á Íslandi hófst á Menntavísindasviði, leikskólakennarafræði, árið
- Fagháskólanám í leikskólakennarafræðum skipulagt í fyrsta sinn á landsvísu í samvinnu við Háskólann á Akureyri árið 2023.
- Íslenskubrú yfir í kennslu- og uppeldisstörf fyrir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í samvinnu við Hugvísindasvið.
- Styrkur úr samstarfssjóði til að þróa starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun.
- Nýtt diplómanám í félags- og tilfinningafærni komið á laggirnar árið 2024.
- Nám í skapandi sjálfbærni komið á fót á Austurlandi í samvinnu við Hallormsstaðaskóla frá hausti 2025.
Samfélagsleg nýsköpun
Ég hef tileinkað mér þá afstöðu að takast á við áskoranir með opnum huga og hafa augun opin fyrir hinu óvænta sem birtist þegar við sjáum hlutina frá nýju sjónarhorni. Sjálfbærar lausnir við flóknum áskorunum verða til við samspil þekkingar og hugvits, þegar aðilar með ólíkan bakgrunn og reynslu leiða saman krafta sína. Nýsköpun er nauðsynleg til þess að þróa og hugsa nýjar leiðir í vísindum og tækni en einnig á hinu félagslega sviði sem mótar líf okkar allra. Sem faglegur leiðtogi á Menntavísindasviði hef ég lagt ríka áherslu á að auka samvinnu og tengsl við samstarfsaðila bæði innan og utan háskólans.
Áherslur og ýmis ný verkefni síðustu árin:
- NýMennt: ný starfseining á sviðinu sem byggir brýr milli fræða og fags með áherslu á læsi, náttúruvísindi (STEAM), nýsköpun og kennsluþróun, sjá vefsíðu.
- Menntahleðsla sett á laggirnar til að bjóða upp á stutt, hagnýt netnámskeið fyrir kennara og fagfólk á sviði menntunar.
- Nýsköpunarstofa menntunar: Samstarf við Reykjavíkurborg og breiðan hóp samstarfsaðila, sjá vefsíðu.
- Gervigreind og skólastarf: Áhersla á fræðslu og samvinnuverkefni um ábyrga nýtingu gervigreindar í kennslu og námi.
- Menntatækni og stafræn námsgögn: Samstarf við innlenda og erlenda aðila á sviði menntatækni.
- Margvísleg samvinnuverkefni á sviði STEAM eða náttúru-og tæknigreinamenntunar.
- Samvinnuverkefnið Stækkaðu framtíðina sem felst í að sjálfboðaliðar heimsækja skóla og segja sína sögu með að markmiði að vekja áhuga nemenda á fjölbreyttum starfsmöguleikum.